Þuríður Backman: Áhyggjuefni þegar nýir þingmenn koma inn og læra það sem fyrir þeim er haft

thuridur_backman_web.jpgÞuríður Backman segir hefði og siði á Alþingi hafa breyst eftir hrun. Hún hafi áhyggjur af því hvernig átakastjórnmál hafa mótað umræðuna á þinginu á kjörtímabilinu. Hún hættir í vor eftir fjórtán ára setu á þingi.

Þetta kom fram í kveðjuræðu Þuríðar á Alþingi í síðustu viku. Hún tók fyrst sæti á Alþingi fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð í Austurlandskjördæmi árið 1999. Hún tilkynnti síðasta haust að hún gæfi ekki kost á sér til endurkjörs í haust.

„Það hefur margt breyst þau 14 ár sem ég hef setið á þingi. Pólitíkin er hin sama, átakalínurnar eru þær sömu, við tökumst á um markaðshyggju og félagshyggju, við tökumst á um náttúruvernd og nýtingu og eignarhald á auðlindum landsins. Við tökumst á um einstaklingshyggju og ekki síst hvernig eigi að fjármagna opinbera þjónustu. 

En pólitíkin hefur skerpst eftir hrun og það sjáum við á þingstörfunum. Við höfum tekist á um ólíkar leiðir til að bjarga þjóðarskútunni og heimilunum frá gjaldþroti eftir efnahagshrunið. Þingsköpin skapa umræðuna hér en ekki bara þingsköpin heldur líka hefðir og siðir.“

Mikil endurnýjun varð í þingkosningunum 2009 og kom þá um þriðjungur þingmanna nýr inn. Þuríður hefur áhyggjur af því hvernig umhverfið undanfarin fjögur ár hafi mótað þessa þingmenn.

„Á þessu kjörtímabili hefur þriðjungur þingmanna verið nýr á þingi. Hann hefur ekki kynnst neinu öðru en því starfsumhverfi sem nú hefur skapast. Mér finnst áhyggjuefni að horfa til næsta kjörtímabils þegar koma nýir þingmenn og læra það sem fyrir þeim er haft.“

Um leið og hún þakkaði fyrir það traust sem hefði verið sýnt í gegnum tíðina og „kjósendum, stuðningsmönnum, samstarfsmönnum og ekki síst starfsmönnum þingsins fyrir ótrúlega seiglu og dugnað á þessum síðustu og erfiðu tímum“ skoraði hún á þingmenn að taka höndum saman og ljúka við endurskoðun á þingsköpum, koma þar á siðareglum og klára önnur störf sem teljist þverpólitísk.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.